28.6.2007 | 18:30
Joðið.
Faðir minn hváði fyrir skömmu þegar hann rak dökkbrún augun í öftustu síðu Blaðsins, þar sem vitnað var í síðustu færslu þessa bloggs.
Þannig er málinu farið að joðið er tilvísun í vef og sviðsnafn sem ég hef notað í nokkur ár; Jimy (samansett úr tveimur uppáhalds gítarista minna, Jimmy Page og Jimi Hendrix).
Guðjón Zatan, einn minna kærustu vina, segir mig safna skammstöfunum eftir hentugleika, sem er ekki fjarri, enda JEVBM ágæt leng, þó lengi megi á sig blómum bæta.
Skondið samt að vera birtur svona í leyfisleysi, þó svo ég geri mér grein fyrir því að einhverstaðar í smáu letri hafi örugglega verið klausa um að vitna megi í bloggið af alls kyns spámönnum og konum sem í hreinni aðdáun á orðfærni minni vilja rífa orð mín úr samhengi og láta mig líta út fyrir að vera, til að mynda, forhertur kynþáttahatari eða karlremba.
Sem betur fer er fólk sem þekkir mig betur en svo og gerir sér grein fyrir því að ég er hvers manns hugljúfi og því sem næst fordómalaus - en hver sá sem segist algjörlega fordómalaus hlýtur að teljast hræsnari, því við höfum öll okkar fordóma hvort sem þeir teljast til jákvæðra fordóma (dæmi: allir svertingjar kunna að dansa og asíubúar eru góðir í stærðfræði) eður neikvæðra (dæmi: Austur Evrópubúar stunda allir vændi, þamba vodka og eru kommúnistar).
Ef ekki væri fyrir það fólk sem skilur mig betur en þeir sem ætla að ég sé illa innrætt manneskja, held ég að ég væri ekki að þessu (en reyndar nýt ég talsverðra vinsælda annarstaðar á vefnum sem pistlahöfundur og rökræðufíkill) þar sem nafnlausar árásir þrífast á netinu - frá heiglum sem ekki hafa í sér manndóm - eða í tilviki feminista kvendóm - til þess að koma fram undir nafni og standa við orð sín.
Þeir sem hafa "blaðað" í gegnum færslur mínar hér á þessu annars ágæta Moggabloggi hafa vonandi lesið næst fyrstu færsluna hér sem birtist undir titilinum "Hugleiðing um Frelsið".
Sú grein ber rök fyrir mínum stjórnmálaskoðunum sem líkjast helst skynsamlegum anarkisma - miðju frjálshyggja.
Ég vil biðja þá sem móðgast og kippa sér upp yfir gífuryrðum mínum að lesa þá grein til þess að skilja hvað ég er að fara.
Nú þegar ég er búinn að koma þessu frá mér vil ég segja:
Lögleiðum eiturlyf, vændi, súludans, klám og reykingar á stöðum í einkaeign (svo lengi sem eigandinn vill það).
Bönnum hræsni, ofbeldi og glæpamannaframleiðslu ríkisins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sumu er ég sammála, öðru ekki. Mér finnst til dæmis reykingabannið svo sem ágætt. Vil líka bæta við að mér finnst að það eigi að banna fólki að tala um fótbolta á opinberum stöðum - fátt fer meira í taugarnar á mér en fullir offitusjúklingar, tuðandi "við vorum að kaupa þennan leikmann, við unnum, við töpuðum, djövull lékum við vel" og svo framvegis, yfirleitt röflandi svo hátt að maður heyrir ekki í hljómsveitinni. Arrrgh!
Einkadans á ekki bara að vera löglegur, hann á að vera skylda!
Ingvar Valgeirsson, 29.6.2007 kl. 13:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.