Færsluflokkur: Kvikmyndir

Stjórnmálaskýring...

...á kvenlegum nótum, fyrir karlmenn sem snaraðir eru í kvikmyndahús...

 

Ég var að hugsa um daginn (sem veit aldrei á gott) þegar ákveðin þriggja tíma ræma var sett í sýningu í bíóhúsum um allan heim.

Ræma þessi er byggð á feikivinsælum kvenmiðuðum sjónvarpsþáttum sem hétu uppá Íslensku 'Beðmál í Borginni'. 

Ég hef ekki látið tæla mig til þess að glápa á þessa ræmu, en þegar ég var í sambandi fyrir þónokkru var ég sjanghæaður af minni þáverandi til þess að horfa á nokkra þætti.

Í þáttum þessum eru fjórar konur miðpunktur athyglinnar og minnti þetta mig á gamla fjórflokkakerfið hérlendis.

Carrie Bradshaw; aðalsöguhetja þessara þátta er tvímælalaust Alþýðuflokkurinn sálugi, eða núlifandi systir hans Samfylkingin. Hún er ekki viss hvar hún stendur í lífinu og hvort hún eigi að stökkva í djúpu laugina með millanum sínum eða að sinna alþýðudrengjum, hún veit ekki alveg hvað hún vill, þessi elska.

Samantha Jones; uppáhalds karakterinn minn í þessum þáttum er þó ekki uppáhalds stjórnmálaflokkurinn minn, hún er kynferðislega sjálfstæð kona sem gerir það sem henni sýnist í beðmálum sínum á meðan flokkurinn sem hún speglar hérlendis er vissulega sjálfstæður í skoðanatöku og leggst með hverjum sem hann sýnist, maddamma Framsókn.

Charlotte York;
hin bláblóðga Karlotta á ekki jafn miklum vinsældum að fagna bólleiðis, en er íhaldsöm með afbrigðum og vill aðeins bláblóðgan aðal í beð sitt og það til frambúðar. Sjálfstæðisflokkurinn er að sama skapi aðeins fyrir aðallinn og á mun meiri vinsældum að fagna en Karlotta speglun hans, en hversvegna það er... ...tja. Maður spyr sig?

Miranda Hobbes; Sterka framakonan Miranda á sér hreina speglun á Íslandi, bæði í dag og gamla fjórflokknum, meiraðsegja er hún með sama hárlit og formaður arftaka Alþýðubandalagsins, Vinstri Hreyfingunni Grænu Framboði. Henni virðist uppsigað við karlmenn og gæti mögulega snúið sér alfarið til kynsystra sinna.

Miranda eignaðist son á sínum tíma með Steve Brady, (Frjálslynda Flokknum) (sem var alinn upp af alkohólískri móður (nauð Íslensku þjóðarinnar vegna kvótakerfisins)) og heitir hann Brady Hobbes (Íslandshreyfingin Grænt Framboð).


Ég vona að þessar vangaveltur mínar stytti karlmönnum sem neyðast til þess að horfa á þetta drama stundirnar.


Mánudagsmorgun...

Úff hvað ég svaf yfir mig í morgun. Ég vaknaði nokkrum tímum of seint (þrátt fyrir að hafa farið á skikkanlegum tíma að sofa) og tók því annan vagn en venjulega til vinnu.

Það var nú ekkert rosalega slæmt, enda fór vagninn sömu leið og venjulega, en bara á öðrum tíma.

Nema hvað , að á Hlemmi sest inn ungt par og fær sér sæti beint fyrir framan mig. Ekkert sérstakt við það svosem, nema hvað að þetta par var alveg afskaplega ástfangið. Svo ástfangið að ég fékk klígju og mig langaði að kasta upp litlum bleikum hjartalaga sykurpúðum. Fólkinu sem sat beint fyrir framan parið var greinilega lítið skemmt heldur, enda hófu þau að herma eftir óhljóðum kossaflensins sem hafði átt sér stað í sætaröðinni á milli okkar þegar þau ástföngnu voru gengin úr vagninum.

Þrátt fyrir ímugust mína á vænmum tilburðum og lítið morgunþol fyrir þessum nánast klámfengnu atlotum (en stúlkan rak tunguna svo langt útúr sér að ég geri sterklega ráð fyrir því að hún yrði eðal lesbía) finnst mér það fallegt að þetta sé leyft hérna. 

Ímyndið ykkur bara. Ef trúarfasismi fengi að vaða hér uppi yrði varla lengi að bíða eftir því að lög yrðu sett gegn hverskonar hegðun sem þessari á almannafæri.

Ég skal ekki segja. 


And on the jukebox Johnny sang
About a thing called love
And it's how are you kid and what's your name
And how would you bloody know?

Þetta lag er búið að vera fast í höfðinu á mér frá því að ég og Halli félagi minn böskuðum um helgina. Það er alveg merkilega skemmtileg aukavinna, smá vasapeningur fyrir það eitt að hanga útí góða veðrinu, fylgjast með mannlífinu og gera hvað mér þykir hvað skemmtilegast, að glamra á gítar.
Myndbandið er talsvert súrt, enda gert af Alex Cox, sem bar ábyrgð á snilldarverkinu 'Straight To Hell' og hinni arfaslöku Sid & Nancy sem er full af rangfærslum og bulli, sbr því að láta Andrew Schofield leika John Lydon sem lítinn asnalegan aula sem hékk í jakkastroffi Vicious, á meðan staðreyndin var sú að Sid var meðlimur í 'The Bromley Contingent' sem var eiginlega grúppíuhópur The Sex Pistols, og var Sid aðeins fenginn til þess að taka við af upprunalegum bassaleikara sveitarinnar, Glen Matlock, sem hinum þótti heldur væminn, og að Rotten/Lydon, sem var upprunalegur meðlimur sveitarinnar, var og er sá eini hennar sem gæti stafað nafnið sitt án þess að vera með uppflettiorðabók...

Nema hvað, þetta myndband er talsvert miklu, miklu betra en sú hörmungarræma (sem þó er vel leikin af Oldman og Webb, en þau fengu ekkert að ráðfæra sig við fólk sem þekkti S&N persónulega.

Þetta myndband er gert við fyrstu smáskífu the Pogues sem kemst á topp 100 lista í Bretlandi, A Pair of Brown Eyes, af plötunni 'Rum, Sodomy & the Lash' frá því 1985, myndbandið er lauslega byggt á sögu Georges Orwell, 1984, en notast við (járn)frú Margaret Thatcher í stað Stóra Bróður og einhverja mjög furðulega obsessíon með augu, en ég tel að það sé vísun í nafn lagsins.

Jæja.

Gleðilegan mánudag.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband