29.8.2008 | 19:18
Reykur og bófar...
Á vesturlöndum er það lenska í dag að banna og banna og banna og banna og banna eins og framfarir í mannréttindum hafi aldrei verið í vestrænu samfélagi.
Grundvallarhugmynd frjálshyggjunar (en. Libertarianism, getur verið bæði hægra og vinstra megin efnahagslega) er sú að við eigum okkur sjálf, við berum ábyrgð á okkur sjálf og frelsi okkar takmarkist aðeins við það hvar frelsi næsta manns endar - á landamærum frelsis okkar.
Ég er reykingamaður. Ég ætla ekki að neita því að mér hefur leiðst óstjórnlega þau óþægindi sem ég og aðrir hafa þurft að upplifa vegna reykingabannsins sem fór í gang á sínum tíma. Ég hef sjaldan fengið jafn oft kvef og í vetur. Takk Siv og takk öll þið hin fíflin sem kusuð með þessum ólögum.
Við búum nefnilega í samfélagi sem virðir eignarréttinn að nafninu til. En ef við höfum ekki yfirráð yfir okkar einkaeignum, eigum við þá hluti nokkuð? Ég vil meina ekki, þegar búið er að afnema ákvörðunarrétt yfir einkaeignum er búið að afnema eignarréttinn.
Ég þekki nokkra verta. Enginn þeirra var ánægður með að ráðskast var með eigur þeirra á þennan máta.
Ég er heldur ekki ánægður sem tónlistarmaður að þurfa að taka mér pásu vilji ég sígó, en slíkt er víst gjald þess að lifa við þessi ólög sem hér eru.
Þegar ráðskast er með eigur einhvers í óleyfi heitir það að taka hlutina ófrjálsri hendi - þjófnaður.
Þegar ráðskast er með helgustu eignir fólks - það sjálft - og reynt að hafa 'vit' fyrir því er það engu líkara en að taka líkama einhvers ófrjálsri hendi - ofbeldi.
Þessi lög eru jú ekkert annað. Heilbrigðisofbeldi.
Þeir sem framfylgja þessum lögum og knýja á með þeim eru þá ekkert annað en ótýndir glæpamenn, í mínum augum í það minnsta.
Larsen á því allan minn stuðning í þessu máli.
Kim Larsen fer í hart | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.9.2008 kl. 12:26 | Facebook
Athugasemdir
"Landamæri frelsis" það líkar mér, en ég hef aldrei séð reyk virða þessi landamæri.
Ég er mjög hrifinn af Kim Larsen, en hann er í bullinu í þessu máli.
Svo er ég hrifinn af tónlistarspilaranum þínum núna, The Clash, klassi, en þú ert í bullinu eins og Kim.
kop, 29.8.2008 kl. 20:01
Verð að viðurkenna að ég er bara sammála þér, Maack. Prinsipsins vegna, ef ekkert annað.
Villi Asgeirsson, 29.8.2008 kl. 21:10
Markaðurinn er besta tólið í þeirri viðleytni að fá reyklaus vertshús, ef eftirspurn er eftir slíku, þá verður það til.
Haraldur Davíðsson, 29.8.2008 kl. 21:24
Ég er sammála þessu. Auðvitað eigum við rétt á því að skíta út loftið hvar sem við komum, sérstaklega í lokuðu rými fullu af fólki.
Ég meina, er ekki bara sjálfsagt að ég meigi skíta hvar sem ég vill ? Hvað kemur það öðrum við ?
Það að ráðskast með líkama fólks og skikka það til að skíta í þar til gerð skíthús er bara ofbeldi. Af hverju er verið að hafa vit fyrir fólki með þessum hætti ?
Mest langar mann að prumpa framan í svona fólk.
Viðar Freyr Guðmundsson, 29.8.2008 kl. 21:51
Hmmm....
Viðar, hefur þú komið á bar eftir að reykingabannið tók gildi? Prumpu, svita og ælulykt.
Ef markaður er fyrir reyklausum kaffihúsum, börum og klúbbum þá verða þeir til.
J. Einar Valur Bjarnason Maack , 29.8.2008 kl. 22:51
Borðið kemst ekki inn í hausinn á mér og augljóslega skynjum við heiminn ekki eins, þó að ég hafi vissulega samúð með bófum og reyk þá finnst mér þetta bann ágætt ég veit ekki hvaða lykt er verri en þetta er allt vond lykt ég lykta auðvitað bara af bláberjum. En auðvitað er þessi afstaða að banna allt bjánaleg.
Emma Agneta Björgvinsdóttir, 30.8.2008 kl. 00:21
Þetta með prumpulktina og það er náttúrulega bara bull. Luktin var þarna fyrir, þú bara fannst hana ekki fyrir reykingastækjunni. :)
Þetta með Larsen minnir mig á atriði sem ég varð vitni að fyrir 14 árum síðan. Bubbi Morthens hélt tónleika í Verkmenntaskólanum á Akureyri í splunkunýjum sal skólans og vígði þar, eftir því sem ég best man, spánýtt hljóðkerfi skólans (úr Tónabúðinni).
Eftir að hafa leikið nokkur lög og talað í það minnsta fimm mínútur fyrir hvert lag reif hann upp rettu og kveikjara. Gerði sig líklegan til að kveikja í. Þá kallaði einhver nemendaráðsstrumpur að reykingar væru stranglega bannaðar í salnum. Bubbi varð sýnilega pinu vonsvikinn. Spurði hvort Keith Richards yrði bannað að reykja ef Stóns kæmu að skemmta. Nemendaráðsstrumpurinn svaraði í hálfum hljóðum, en þó nógu hátt til að allmargir heyrðu... "Nei".
Ég hló pínu.
Ingvar Valgeirsson, 30.8.2008 kl. 15:27
Já tvískinnungurinn, blessaður tvískinnungurinn............
Haraldur Davíðsson, 30.8.2008 kl. 15:38
Það var ekki tvískinnungurinn sem ég hló að.
Þetta minnti mig á hvað segir í gamalli bók, að það er betra að setjast aftarlega í hátíðarsalinn og vera vísað framar, en að setjast við hlið konungsins og vera vísað aftar.
Ingvar Valgeirsson, 31.8.2008 kl. 23:14
Þegar Einar verður búinn að lesa þetta þá verður hann brjálæður út í mig. Sorry Einar að þó svo við séum kannski ekki svo langt frá hver öðrum í skoðunum um hin ýmsu mál þá alla vega trúi ég ekki á frjálshyggjuna, ég held að hún virki illa og nýtist einum hópi þjóðarinnar betur en öðrum.
Frjálshyggja er hugmyndafræði á við trúarbrögð. Þeir sem aðhyllast frjálshyggjuna telja að markaðurinn stjórni sér sjálfur, og trúa því að svo sé. Reglur eigi að vera svo í lágmarki að nánast sé hægt að troða á næstu manneskju til þess að frelsið virki hjá hinum. Þannig er það alla vega með tvo þekkta dómara í Hæstarétti sem skiluðu séráliti þess efnis að skerða rétt kvenna og barna sem verða fyrir kynferðisofbeldi, til að frelsi glæpamannsins sé tryggt. Þetta + það að fleiri fleiri lönd í Afríku súpa dauðan úr skel sökum frjálshyggjustefnu. Allt var einkavætt og þeir sem fengu auðlyndir Þjóðanna komu arðinum úr landi. Frjálsræði efnafólks á kostnað þeirra sem eru efnaminni í Bandaríkjunum hefur haft skelfilegar afleiðingar í för með sér. ,,Working poor" er staðreynd. Frelsi þeirra sem efnameiri eru kemur í veg fyrir samtakamátt hinna efnaminni. Það virðist vera þannig að frjálshyggjan virkar betur fyrir þá sem eiga fullt af peningum. Menn trúa því að ,,ameríski draumurin" sé eitthvað heilagt, menn halda að það hafi allir jafnan séns á að verða ríkir. Þetta er ekki svo auðvelt.
Kveðj, Valsól
Valsól (IP-tala skráð) 31.8.2008 kl. 23:17
Valsól, mér heyrist þú aðhyllast þau trúarbrögð að frjálshyggjan sé af hinu illa.
Mér þykir það mjög miður að þú hafir fyllst þeirri sturlun hér að ofan að bera saman kynferðisglæpi og REYKINGAR... WTF?
Allsherjarlausnir eru ekki til, það á við um allar stjórnmálalegar stefnur. Mínar skoðanir falla á þann hluta hins pólítíska kompáss að ég er staddur á frjálshyggjurófinu, andstætt gerræðisrófinu.
Það að bera saman kynferðisglæpi þar sem 100% fórnarlamba verða fyrir skaða á þetta fjálgslegan máta við óbeinar reykingar (sem fjórfalda jú vissulega líkurnar á krabbameini hjá viðstöddum úr 20:1.000.000 í 80:1.000.000 sem samt sem áður eru hverfandi líkur) er satt best að segja fáránlegt.
Svo er náttúrulega mjög barnalegt að bera Friedmanismann við mig, þar sem ég er meira á Keynesískum nótum í mínum efnahagsskoðunum.
J. Einar Valur Bjarnason Maack , 31.8.2008 kl. 23:33
Ég aðhyllist einstaklingsfrjálshyggju, en ekki markaðsfrjálshyggju (a.m.k. ekki á þann hátt sem sjallar virðast gera). "Markaðurinn" hefur margoft sýnt og sannað að honum er ekki treystandi: of mikið vald spillir. Einstaklingurinn hefur afar takmarkað vald yfir öðrum en sjálfum sér, svo honum á að leyfast að gera hvað sem hann vill svo lengi sem það skaðar ekki aðra. Fyrirtæki virðast hinsvegar ekki þurfa að bera þá byrði, þ.e.a.s. að skaða ekki aðra, og komst því upp með að skaða einstaklinga (og þá meina ég skaða þá beint - barnaþrælkun er látin fljóta því hún eykur gróðann) allt í nafni einhverrar úrkynjaðrar frjálshyggju. Sú hugmyndafræði á ekkert skylt við þá frjálshyggju sem ég aðhyllist.
Úff...ég skil hvað Valsól meinar með trúarbrögðum...
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 1.9.2008 kl. 16:37
En það er líka markaður fyrir reyklausu skemmtistöðunum. Annars væru þeir allir farnir á hausinn núna. Svo að það kemur málinu bara ekkert við.
Hinsvegar eru allir skemmtistaðirnir núna mun heilbrigðara starfsumhverfi fyrir starfsmenn (og gesti) staðarins. Á kostnað hvers ? Það kostaði aðeins minniháttar fyrirhöfn fyrir þá sem reykja.
Viðar Freyr Guðmundsson, 3.9.2008 kl. 17:25
"Ég hef sjaldan fengið jafn oft kvef og í vetur" segir þú - getur ekki bara verið að þú sért búinn að rústa í þér ónæmiskerfinu með reykingum, svo þetta sé ekki hollri útiverunni að kenna? Kvef er jú það fyrsta sem maður fær þegar ónæmiskerfið virkar ekki sem skyldi... skildi... hvort er ypsilon eða ekki?
Annars var ég mjög mótfallinn reykingabanninu í upphafi og skil svo sem enn sumpartinn að menn séu á móti því. En pöbbarnir eru líka starfsumhverfi margra og það á að vera skýlaus (í þessu tilfelli bókstaflega) réttur starfsfólks að geta unnið í heilnæmu umhverfi. Óbeinar reykingar eru hættulegar og það á ekki að þurfa að sætta sig við svoleiðis í vinnunni. Svo er ég ekkert of merkilegur til að labba útfyrir þegar ég vil fýra í.
Svo er vælið í sumum vertum pöbbanna beint hlægilegt - það var vægari löggjöf, hvar sagði að menn ættu að bjóða upp á reyklaus svæði. Það var sjálfsagt og eðlilegt en ENGINN fór eftir þeim lögum. Ég man allavega ekki eftir neinum stað sem virti þá löggjöf hér á Reykjavíkursvæðinu. ENGINN pöbb sem ég fór inn á bauð upp á reyklaust svæði og þvældist ég þó um á þeim allnokkrum. Því má jafnvel taka svo djúpt í árinni að segja að vertar vínveitingahúsa hafi kallað þessi lög yfir sig sjálfir, því þau virtust vera það eina sem dugði.
Varðandi það að vertar eigi að mega bjóða fólki að reykja því þeir eigi jú staðinn - þá er það ekki alveg svo einfalt, því þeir eru með fólk í vinnu.
Ef það á að vera í lagi að reykja á veitingahúsum - því ekki annarsstaðar, í bönkum, verslunum og skólum?
Ingvar Valgeirsson, 3.9.2008 kl. 18:29
Jæja. Ykkur er þá sama um það að þeir reyklausu skemmtistaðir sem fyrir voru hafi tapað sinni sérstöðu...
...engu að síður hafið þið til máls að mæla með óbeinar reykingar.
Ég man eftir...
...engum reyklausum barþjóni alla mína drykkju tíð...
...nema að því kæmi að sá hinn sami væri mun verri dópisti, en það er önnur saga.
Þetta eru þónokkuð þunn rök hjá ykkur strákar.
Grátið annarstaðar. Þetta er grátlaust svæði!
J. Einar Valur Bjarnason Maack , 3.9.2008 kl. 20:28
Átt´eld?
Gulli litli, 3.9.2008 kl. 22:03
O, ég man eftir Kim Larsen...hann er góður.
Hættu að reykja.
Halla Rut , 3.9.2008 kl. 22:08
Gulli; já. Margskonar.
Halla; nei!
...tja, ekki fyrr en þetta skítapakk á Austurvelli hættir að segja mér fyrir verkum og reyna að neyða mig til þess að hætta. Ef ég hætti verður það á eigin forsendum, ekki á forsendum þingmanna, þeir sem kusu þessi EVRÓPSKU ÓLÖG yfir okkur mega hverfa uppí eigin ESBelskandi garnir fyrir mér.
J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.9.2008 kl. 09:58
Þú veður reyk í þessu máli, J. Einar, eins og þú ert annars yfirleitt skarpur.
Í fyrsta lagi fer reykurinn og ólyktin af sígarettum út um allt og er allstaðar til ama. Eini staðurinn sem þú mátt menga umhverfið í kringum þig er heima hjá þér, eða við slíkar aðstæður, þar sem þú átt réttinn.
Nú á dögum þurfa reyklausir allstaðar að halda niðri í sér andanum þegar gengið er inn í opinberar stofnanir og fyrirtæki, því reykingarfólkið hímir við dyrnar og andar að sér og frá sér reyknum góða.
Það er þó í himnalagi miðað við það að þurfa að standa í röð í banka og vera að kafna í reyk, eins og einu sinni var.
Hvað gerir reyklaust fólk gagnvart reykingarfólki sem líkja má við þennan ósið? Ekki neitt! Hvernig er þessi subbuskapur réttlætanlegur, nema eins og í dag, í afmörkuðum reykrýmum?
Þetta með skemmtistaðina hjá þér gengur ekki upp. Fólk fer saman út á lífið; í bíó, í flugvélar, í bíngó og allstaðar á að vera hægt að treysta því að þurfa ekki að anda að sér reyk frá einhverjum sjálfselskum reykingarmanni, hann getur tekið sína fíkn út, eða inn í einhvern einangraðan reykkrók.
mbk,
Kristinn Theódórsson, 4.9.2008 kl. 14:11
En ef staðurinn sem um ræðir er staður þar sem almennt er reykt.
Tökum bari sem dæmi, það eru þónokkrir barir þar sem meirihluti fastakúnna reykir. Eiga þeir þá að gjalda þess að örfáir einstaklingar, til dæmis 5% fastakúnna eða nokkrir einstaklingar sem koma þangað öðru hverju, reyki ekki?
Meirihluti minna vina reykja.
Ástæða þess að fólk þarf að halda niðrí sér andanum áður en farið er í opinbera stofnun er sú að reykingar eru algjörlega bannaðar um alla bygginguna, ekki leyft í afmörkuðum reykherbegjum úr alfaraleið og alls meiraðsegja bannað inná einkaskrifstofum.
Hvað gerir reyklaust fólk?
TUÐAR!
Ég keyri ekki bíl. Þætti þér ekki leiðinlegt ef ég æddi upp að þér í hvert skipti sem ég sæi þig og tuðaði yfir því að þú sért að menga andrúmsloftið og fylla miðbæinn af skítafíluútblæstri með bílnum (þ.e. ef þú keyrir bíl)?
Laissez Faire!
J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.9.2008 kl. 16:01
reykingar eru algjörlega bannaðar um alla bygginguna, ekki leyft í afmörkuðum reykherbegjum úr alfaraleið og alls meiraðsegja bannað inná einkaskrifstofum.
Átti að vera:
Reykingar eru algjörlega bannaðar um alla bygginguna, ekki leyfðar í afmörkuðum reykherbegjum úr alfaraleið og meiraðsegja bannaðar inná persónulegum skrifstofum einstaklinga í stjórnunarstöðum margra fyrirtækja!
Afsakið orðfret.
J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.9.2008 kl. 16:06
Heyr Heyr. var einmitt að skrifa færslu um reykingar.
http://presleifur.blog.is/blog/presleifur/entry/633762/
þoli ekki allt þetta væl í fólki sem ekki reykir, láta okkur sem reykja úti frjósa í veðri sem þau setja ekki einu sinni hundinn sinn útí nema til að pissa og skíta.
Leifur Ellert Guðmundsson, 4.9.2008 kl. 16:37
Sem krakki man ég eftir því að hafa beðið í reykingarstækju og hita á flugvöllum þegar foreldrar mínir voru að ferðast, sem þó ekki reyktu, og liðið illa, átt erfitt með að anda og þótt biðin eftir farangrinum þrefaldast við þessar aðstæður.
Sem unglingur man ég eftir því að hafa staðið utan við strætóskýli í roki og rigningu því einhver tillitslaus reykingarmaður ákvað að nota skjólið og reykja þar.
Nýverið millilenti ég í Englandi og sá þar að opnir innanhúsveitingastaðir leyfðu reykingar, en þær voru bannaðar í aðalrýminu. Loftræsting var þó svo slöpp að öll flugstöðin var mettuð af reyk og ég sem var hálf slappur eftir langa vinuferð leitaði sveittur að stað sem hægt væri að draga andann án þess að verða bumbult.
Þegar reykingarfólk talar um "tuð" í reyklausu fólki verður mér hugsað til þessara aðstæðna og velti því fyrir mér hvort því sé alvara!?
En ég tek það nú fram að ég hef síðan stundað djamm og partýstand með reykjandi vinum árum saman, og aldrei kveinkað mér við því við slíkar aðstæður, þrátt fyrir að reykt hafi verið í litlum herbergjum og ég stundum varla séð handa minna skil fyrir reyk.
Prinsipsin vegna ætla ég samt að reyna að leiða þig í allan sannleikan um hversu öfugsnúin og ranglát afstaða þín er, hr. Maack.
Fyrir um 30 árum þótti í hæsta máta eðlilegt að reykt væri allstaðar. Það þótti kurteisi að eiga alltaf til og bjóða upp á sígarettur og öskubakkar voru á hverri einustu brún eða syllu sem þeir komust fyrir á.
Reykingarmenn á þessum tíma þurftu ekki að temja sér hina minnstu tillitsemi og reyktu hvar sem þeim líkaði og hvenær þeim líkaði; í flugvélum og í bíó sem dæmi, þar sem fólk sat i kringum þá og komst hvergi án þess að stökkva frá borði eða fara á mis við kvikmyndina.
Upp úr þessari menningu urðu til barir, kaffihús og veitingastaðir sem að sjálfsögðu var reykt á, en stundum var helmingur salarins afmarkaður og kallaður reyklaus, þó svo að reykurinn hafi vitaskuld virt þau landamæri að vettugi og því enginn merkjanlegur munur á þessum svæðum hvað þetta snerti.
En yfir í nútímann.
Fólk velur gjarnan skemmtistaði og pöbba eftir stemningu í hópnum sem ætlar út. Við áfengisþamb hefur lengi loðað að reykt sé líka, og margir reykja jafnvel einungis þegar þeir djamma. Þeir í góðum hópi fólks sem ekki reykja eru því löngu búnir að læra að þola reykingarnar við slíkar aðstæður, eða fara ella ekki út. Maður vill svo ekkert tvístra vinahópnum til að draga þá sem ekki reykja á reyklausa kaffihúsið í hinum enda bæjarins en skilja reykingarfólkið eftir þar sem það er.
Vegna þessa og vegna þess að hefðin er sú að tóbak og áfengi fari saman verða reyklausu barirnir ekki margir á meðan enginn neyðir þá til að starfa. Bareigendur hafa tekjur af tóbakssölu og vilja höfða til breiðs kúnnahóps, þeir vita sem er að reyklausa liðið kemur hvort sem reykt er eður ei og aldrei verða þessi útópísku reyklausu kaffihús til, nema sem lítil tilraunaverkefni.
Allan þennan tíma fær reykingarfólkið að stunda sínar reykingar og yfirtroðnir skemmtistaðirnir eru fullir af þungu lofti og sígarettureyk sem svíður í augu fólks sem ekki eru vant slíku og gerir þeim erfitt um andardrátt.
Reyklausi maðurinn og sá reykjandi eiga nefnilega báðir rétt á að fara á pöbbinn að kaupa sér löglegan vímugjafa á borð við áfengi. Sá reyklausi á rétt á því að enginn sé að ausa yfir hann reyk, þar sem hann situr í rólegheitum, og sá reykjandi á rétt á að reykja sínar löglegu sígarettu, en aðeins ef hann getur tryggt að hann einn fái yfir sig reykinn. Svo lengi sem hann getur það ekki, er það ekki réttur hans að reykja, nema heima hjá sér.
Það er ekki verið að skerða eðlilegt frelsi reykingarmanna, það er verið tryggja frelsi reyklausra, sem ekki hafa kosið að taka upp þennan illa þefjandi, óholla og tilgangslausa sið.
Vilji menn ekki sætta sig við að reykja úti í kuldanum, geta þeir bara hætt að reykja. Þið getið ekki ætlast til þess að fólk sem hefur tekið þá eðlilegu ákvörðun að reykja ekki verði að lifa eftir duttlungum ykkar, sem hefð reykinga hefur komið því svo fyrir að þykja eðlilegar og ekki er í neinu samræmi við það sem réttlátt er.
mbk,
Kristinn Theódórsson, 4.9.2008 kl. 17:47
Er það forsenda til þess að banna reykingar á börum að reyklausir barir virka illa?
Ég myndi segja ekki, og skammist ykkar reyklausir fyrir að styrkja ekki frekar slíka þjónustu en að vera að banna öllum...!
J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.9.2008 kl. 18:23
lol
Það er greinilega allt í lás hvað þetta málefni snertir hjá þér.
Tökum þetta svona:
Vinsælir skemmtikraftar spila á stórum stöðum. Hefðin fyrir reykingum veldur því að stóru staðirnir eru reykingarstaðir. Fólk getur annað hvort valið fara á Café-Reykleysi og sjá ekki og heyra vinsæla skemmtikraftinn eða þola reykinn.
Keðjuverkunin er svo sú að reykingarnar halda áfram að loða við þá staði sem fólk almennt vill sækja og ekkert breytist.
Það eina sem rýfur þessa keðjuverkun er bann við reykingum á skemmtistöðunum, svo allir sitji jafnir að borðum þar sem hlutirnir gerast.
Þetta snýst ekkert um fylkingar. Allir eiga einfaldlega rétt á því að stunda almenna skemmtun án þess að þurfa að þola reykingar annarra, líka reykingarfólk.
mbk,
Kristinn Theódórsson, 4.9.2008 kl. 18:48
Ég er hinsvegar algjörlega ósammála þessu, hvað með reykingamenn?
Sérðu ekkert athugavert við það að fólk vilji sækja staðirna þar sem reykingar eru?
Þessi forsjárhyggja er hrein og klár tímaskekkja.
J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.9.2008 kl. 20:15
Þetta er ekki forsjárhyggja, þú mátt tjarga í þér lungun eins og þú vilt, þú átt bara ekki rétt á að trufla aðra með reyk og skít á meðan þú gerir það.
Eina ástæðan fyrir því að reykingar voru leyfðar út um allar trissur er sú að einhver kanasleikjumenning var við lýði fyrir 60+ árum, þeir reyktu og reykingar urðu því eðlilegar.
Ef sígarettur væru að koma til sögunnar í dag kæmi það ekki til greina að fólk fengi að reykja þær og púa yfir aðra hvar sem það vildi, það þætti fáránleg hugmynd.
Hvað með reykingarmenn? Þetta er sjálfvalin fíkn. Það er engum vorkunn að vera reykingarmaður, það valdi hann sjálfur.
Ég hef hinsvegar ekkert á móti reykklefum á borð við þann sem er við bar Kormáks og Skjaldar (eða hvað hann heitir).
Finnst þér að þér sé vorkunn að fá ekki að púa yfir allt og alla á skemmtistöðum þar sem viðhefst glórulaus hefð fyrir reykingum sem erfitt er að fá breytt án lagasetninga?
mbk,
Kristinn Theódórsson, 4.9.2008 kl. 20:28
Nei, en finnst þér það réttlætanlegt að reykingafólki sé vísað út á þennan máta?
Og það er fólki í sjálfsvald sett hvort það mæti á bari þar sem reykt er! Ef þú ferð á bar þar sem er reykt og fílar ekki lyktina er þér ekki vorkunn heldur!
Það ætti ekki að vera svona algild regla þar sem eitt er neytt yfir alla.
Og þetta er forsjárhyggja í hnotskurn.
J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.9.2008 kl. 20:52
Það er gaman að þessu, þú ert harðákveðinn í að sjá sjálfan þig sem þolanda einhvers óréttlætis, þegar þú í raun ert gerandi en ekki þolandi.
Hvernig sem þú snýrð þessu ert þú maðurinn sem vill fá að spúa óþverra yfir annað fólk, á stöðum sem það sækir af sömu ástæðu og þú, að öðru leyti en því að reykja.
Ef ég með mínar ranghugmyndir geng um með sprautubrúsa með grænsápu sem ég reglulega spreyja yfir mig með tilheyrandi grænsápuskýi, á ég þá rétt á því að halda því áfram á pöbb þar sem þú á næsta borði færð alltaf góða prósentu af skýinu í andlitið og í logandi rettuna þína, sem svo bragðast illa með grænsápunni?
Það er alveg jafn heimskuleg aðgerð eins og að spúa reyk yfir fólk og ofan í sig sjálfan. Það gæti samt alveg hafa skapast einhver hefð fyrir slíku bulli; grænsápa er heilnæm!
Ættir þú þá bara að hundskast til að velja þér annan skemmtistað og yfirgefa einu almennilegu pönktónleika helgarinnar? Væri ekki eðlilegra að ég hundskaðist afsíðis með helvítis grænsápuna mína?
mbk,
Kristinn Theódórsson, 4.9.2008 kl. 21:09
Ég hef séð ógeðslegri hluti en grænsápu á pönktónleikum.
Hitt er svo annað mál að þetta er óréttlæti. Neyslureglur settar gegn neytendum löglegrar vöru á heilbrigðisforsendum, það að reykingafólk geti ekki sótt staði þar sem má reykja (til að mynda mætti veita reykleyfi á mjög vel loftræsta staði) er raunar óréttlæti.
Hversvegna ætti ég að þurfa að yfirgefa einu almennilegu pönktónleika helgarinnar til þess að þú getir andað að þér svitafýlunni úr moshpittinum og ég farið út í kuldann (þrátt fyrir að borga fyrir miða) og misst af lögum sem ég hef borgað fyrir og láta e-n stela af mér drykk sem ég þarf að skilja eftir fyrir innan ?
J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.9.2008 kl. 21:19
Mjólk er lögleg neysluvara, á ég rétt á að sulla alltaf desílítra yfir nærstadda í hvert sinn sem ég fæ mér sopa?
Annars veit ég vel að klár penni eins og þú skilur þetta alveg, þú ert með þessa afstöðu sem lífsstíl og það er vel, ég læt þó sem ég fatti það ekki fyrir sakir karpgleði.
Það skiptir engu máli þó að loftræsting sé eitt stykki Rolls Royce þotumótor, reykurinn fer alltaf framan í næsta mann þegar honum er sleppt, og það er óþægileg og kæfandi reynsla fyrir púðurbossana sem ekki smakka nikótín.
Þú þarft að læðast út á svalir að syndga í roki og kulda af því að þú valdir að gerast háður nikótíni, en átt að sama skapi ekki rétt á að púa skít framan í annað fólk - sem vel þolir eðlilega líkamslykt í bland við rakspíra og hársjampó, svo lengi sem það ekki er kæfandi þungt og mikið eins og góður reykmökkur sem laumast af vörum þinum og yfir á næsta bás.
mbk,
Kristinn Theódórsson, 4.9.2008 kl. 21:33
Mér þykir megn líkamslykt af MDMA neytandi dansfíflum mun verri en mökkurinn.
Vissulega valdi ég fíkn mína, en valdir þú ekki að koma inn á barinn?
Flugvélar, veitingahús, hótel, almenningsvagnar, strætó, leigubílar, vinnustaðir...
...hvar eiga vondir að vera? Undir rúmi, með ljósin slökkt og dregið fyrir gluggana?
J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.9.2008 kl. 21:52
Að sjálfsögðu finnst þér mökkurinn betri, þú ert búinn að eyða drykklangri stund á degi hverjum í að láta þér finnast hann góður, en ekki ógeðslegur, sem hann þó er.
Ég valdi að koma inn á barinn og vonaði að ég yrði dálítið heppinn og mestu reykboltarnir væru veikir heima með bronkítis, eins og þeir jafnan eru. En viti menn þeir voru mættir fjórir á næsta borð og eru allir að kveikja í Camelunum sínum, Winstonunum og Lucky Strikunum - hver með sinni stununni.
Ég hætti fljótlega að finna bragðið af bjórnum mínum og píri augun til að það svíði minna í þau á meðan ég horfi á mannfjöldann. Maackarnir fjórir á næsta borði eru glaðbeittir mjög og skála á milli þess sem þeir blása hringi og senda taumana út um nasirnar og blikka mig til baka, en þeir halda ábyggilega að sé að blikka þá því mér svíður svo í augun að ég er farinn að tárast og blikka í sífellu.
Ég, sem á deit við flotta skutlu þarna seinna um kvöldið, stend upp, skil hálfan bjórinn eftir og hleyp út á götu að draga ferskt loft ofan í lungu - ahhhhhh!
Vondir eiga að vera úti á tröppum að reykja í loftslaggi jarðarinnar, en ekki í loftslagi herbergis eða lítils salar þar sem allir aðrir ekki þurfa að taka þátt í því með þeim.
Ég pönkrottan verð sem sagt bara að vera heima ef mér líkar ekki reykurinn af því að vill svo til að Maackararnir eru pönkrottur líka og eru alltaf að mökka þar sem ég vil vera?
mbk,
Kristinn Theódórsson, 4.9.2008 kl. 22:12
En hví vilt þú (1 stk) vera þar ef þeir (4 stk) eru þarna alltaf...?
Mér þykir skötulykt ekki góð. Á að banna skötu á þeim veitingastöðum sem ég kýs að fara á, þó það sé Þorláksmessa?
Á að banna skötu í fjölbýlishúsum?
Reykingar eru bannaðar á stigagöngum (sameign) hví ekki skatan líka?
Hvort kom á undan, þú á barinn eða reykingarnar?
J. Einar Valur Bjarnason Maack , 4.9.2008 kl. 23:15
Við gætum alveg verið 5 eða 100, það myndi engu breyta fyrir þig, þú vilt bara fá að púa skít framan í fólk.
-
Einn dag vill svo til að nánast enginn er að reykja á tónleikastað sem ég álpast inn á. Ég og nokkrir vinir eigum frábært kvöld og stefnum að því að sjá bandið Skítastamp á sama stað helgina eftir. Þegar við mætum helgina eftir er andrúmsloftið gott og Skítastampurinn að rokka á sviðinu. Við vinirnir setjumst niður með kollu og skemmtum okkur vel.
Tveim slögurum síðar ganga 3 Maackar inn með retturnar í kjaftinum og hlamma sér í næsta bás. Þeir eru færri en við, komu á eftir okkur og nú eru þeir að gera andrúmsloftið daunillt og fúlt. Eftir skamma stund er mökkurinn orðinn þéttur yfir básnum og menn farnir að horfa í kringum sig eftir borði sem er nær opnum glugga, en finna ekkert slíkt sem er laust.
Kvöldið heldur áfram, Maackarnir eru búnir að skerða skemmtanagildið nokkuð og bara af því að þeir nenna ekki út á svalir endrum og eins þegar þeir vilja fara að menga í sér lungun.
Vegna úreltrar hefðar er þetta tillitsleysi ekki ólöglegt, og í stað þess að finna það hjá sjálfum sér að reykja úti eða fyrir og eftir skemmtanahaldið, þá mökka Maackarnr yfir hvern og einn eins og tímavilltir rómarkeisarar sem engu þurfa að sinna nema rassinum á sjálfum sér.
-
Skatan er bundin við örfáa daga á ári og þegar fólk fer að fá sér Þorramat er það vísvitandi að ganga í svona ólyktarpakka. Ég fer yfirleitt ekki á slíkar matarsamkomur, en skil vel að aðrir vilji það.
-
Það eru engin rök að eitthvað hafi komið á undan. Á allt óréttlæti að fá að viðgangast ef það er til staðar þegar ný kynslóð kemur að máli? Það hefði nú aldeilis skilað réttvísinni langt, eða hitt þó heldur.
mbk,
Kristinn Theódórsson, 5.9.2008 kl. 08:04
Þetta er samt sem áður afskipti af yfirráðarétti verta yfir þeirra EINKAEIGUM og þessi reykingastefna er í ætt við kommúnisma og eignanám.
Ég þekki stráka sem fóru á hausinn mánuði eftir reykingabann, fastakúnnarnir sem héldu staðnum uppi reyktu næstum allir og hættu að koma eftir bann.
Finnst þér réttlætanlegt að fólki sé þvingað úr viðskiptum með þessum hætti?
Ef þykir sannað að meirihluti kúnnahóps e-s staðar reykir, af hverju á sá kúnnahópur að sýna þér tillitssemi? Hvaða rétt hefur þú á því, þegar dæmið er þannig að án viðskipta við þennan ákveðna hóp fari staðurinn á hausinn og þú sért ekki líklegur til þess að vera þarna frá morgni til kvölds með öllum þínum vinum, sem ekki reykja, til þess að bæta upp fyrir viðskiptatapið sem reykingalögin valda?
Túir þú mér ekki?
Kaffi Vín babe. Ég missti fastastaðinn minn í þessi ólög.
Takk fyrir það.
J. Einar Valur Bjarnason Maack , 5.9.2008 kl. 10:18
Verði þér að góðu
Hvernig leggur þú til að þetta eigi að vera? Hvernig á að fá nokkurn einasta núverandi skemmtistað (þáverandi) til að breyta þessu?
Allir segjast eiga reykjandi fastakúnna og grenja yfir tóbakssölu - sem allir gerðu. Einhverjir lifa ekki af breytinguna og aðrir koma í staðinn, það er dæmi hvernig markaðsöflin starfa, sem þú vilt láta þetta alfarið eftir.
Hver er munurinn á að það sé bannað að reykja í bönkum og að það sé bannað að reykja á pöbbum?
Ég vil geta staðið í röð í banka án þess að anda að mér reyk næsta manns.
Ég vil geta staðið í röð á pöbb eftir bjórkollu án þess að vera að kafna í reyk.
Hver er munurinn á þessu tvennu? Á ég bara að bíða eftir að einhver reyklaus peningamaður stofni banka fyrir reyklausa og halda þangað hvernig sem sá banki er rekinn, eða halda ella kjafti?
Pöbbar eru samkomupleis, fólk fer þangað til að hitta annað fólk, drykkjan, tónlistin og reykurinn eru viðbætt atriði. Þetta eru einfaldlega samkomuhús. Reykingar eru ekki tilgangur slíkra staða frekar en þær eru í bönkum.
Fólk á einfaldlega ekki rétt á að púa framan í hvort annað, heldur ekki í banka sem eigandinn vill leyfa reykingar í.
Ef til væri reykklúbbur, væri það allt annar handleggur, þó að það þyrfti að koma í veg fyrir að slík lög yrðu misnotuð af skemmtistöðum.
mbk,
Kristinn Theódórsson, 5.9.2008 kl. 11:09
Ég þekki þónokkra verta og þetta er búið að vera stefnuatriði hjá mörgum í talsverðan tíma, að stofna reykklúbb, en það eru lítil sem engin úrræði í slíku.
Svo heldur þú því fram að þetta sé ekki forræðishyggja?
Þetta er nefnilega ekkert annað.
Þessi lög voru ekki sett undir þeirri forskrift að þetta væri fyrir kúnnana, því kúnnar komu á bari fyrir reykbann. Þetta var sett fyrir starfsmenn.
Ég hef unnið á þónokkrum börum og sjaldan eða aldrei hitt reyklausan barþjón. Þetta var sett fyrir hvern þá?
Ég er enn og aftur, ekki að tala um að fólk eigi að blása framan í aðra, enda telst það dónaskapur, en hvert sem við reykingamenn höfum verið settir hafa reykleysispésar komið og hóstað og pústað eins og að við séum að neyða þá til þess að vera í kringum okkur.
Samkomustaðir fyrir reykingafólk eru engir lengur.
Þið höfðuð bankana, flesta veitingastaði, allar opinberar byggingar, allar verzlanir (nema Björk sem leyfði reykingar eins lengi og hún mátti).
Við megum ekki tala um að við njótum tóbaks. Til að mynda finnast mér Lucky Strike sígarettur afskaplega góðar, en ef ég tjáði mig um það í viðtali væri hægt að kæra mig.
Reykingamenn voru ekki að ofsækja reyklausa. Reyklausir telja sig hinsvegar öllum öðrum fremri og að réttur þeirra eigi að ganga yfir rétt reykingamanna, yfir rétt verta og helst á ríkisvaldið að svipta reyklausa þörfinni á að hugsa sjálfstætt.
Ef þú vilt ekki búa við hliðina á flugvelli, flytur þú ekki í Skerjafjörðinn og vælir.
Ef þú vilt ekki vera í kringum reykingar, þá er fullt af stöðum sem reykingar eru bannaðar á og það voru fyrir tíma banns reyklausir staðir sem hafa týnt markaðssérstöðu sinni í dag.
Hvers áttu þeir að gjalda?
Það þýðir svo ekkert að segja að maður fylgi náttúrulega hópnum og hópurinn sæki í reykinn... því það segir meira en bara það að fólkið sækist í reyk, það þýðir líka að reyklausir séu of miklir sauðgripir til þess að fara eigin leiðir, það þýðir líka að reyklausir séu og sjarmalausir til þess að draga hópinn með sér á reyklausa staði.
Ég fór nokkrum sinnum með reyklausum vinum mínum á reyklausa staði í denn, fór svo bara út að reykja. Ég kippti mér ekki upp við það. Ég reif ekki upp pakkann og tók að púa því að ég hefði rétt á því, því réttur minn nær ekki svo langt, en hversvegna skyldu reyklausir hafa rétt á því að vaða yfir reykingamenn og væla í sífellu?
Það að úthýsa okkur af öllum stöðum er ekkert nema ofsóknir. Einhversstaðar verða vondir að vera - og ef þú segir 'já heima hjá sér' ertu að sanna mál mitt.
Hvers vegna geta reyklausir ekki bara verið heima hjá sér ef reykurinn fer svona í þá?
Það er ekki það að ég sé tillitslaus, ef einhver er veikur í lungum eða slíkt þá get ég alveg fært mig og það hefur jafnvel verið svo að ég hafi haft gesti sem ekki þola reyk og ég því farið út að reykja í eigin húsnæði. Það er ekki vandamálið, ég vil hinsvegar geta farið á bar og fengið mér sígó með bjórnum án þess að þurfa að standa úti og fá lungnabólgu eða kalsár í andlit. Er þetta til of mikils mælst?
Var skynsamlegt í löggæslulegu tilliti að vísa fólki út af skemmtistöðum, út á götur þar sem lögreglusamþykkt er brotin í hvívetna og líkur á ofbeldi, sóðaskap og hávaða stóraukast?
Ég sat á bar í vor ásamt hópi fastakúnna, starfsmanna og verts. Um leið og síðustu kúnnarnir sem ekki voru fastakúnnar voru farnir út og hurðinni lokað á slaginu 01:00 teygði vertinn sig í sígó og það sama gerðu kúnnarnir.
Er ekki best að loka bara börunum og drekka undir borðið, í reykfylltum leyniklúbbum sem svipar til ölknæpa bannárana?
Því harður vetur gæti virkilega leitt til slíkrar þróunar.
Er það jákvætt?
J. Einar Valur Bjarnason Maack , 5.9.2008 kl. 12:20
Þegar ég tala um að púa framan í fólk er ég að sjálfsögðu að grínast, slíkt gerir enginn, en það breytir því ekki að reykingar í lokuðu rými eru fáránlegar.
lol - þetta er alveg ónýtt hjá þér. Einhver hópur fólks með undarlegan og tilgangslausan ósið á að fá að spilla umhverfi fjöldans og svo geta hinir bara verið heima ef þeir fíla það ekki!
Nei, það á enginn að fá að spilla umhverfi annarra.
Reykingar eru eina löglega efnið hvers neysla spillir umhverfi annarra sem ekki eru að neyta efnisins.
Hvernig sem þú snýrð þessu, og þú ert bara að snúa þessu á einn veg, er það ekki eðlilegt utan þín einkarýmis að aðrir þurfi að anda að sér reyk og uppifa gjörbreytt andrúmsloft af því að þú ert að svala fíkn þinni.
Þegar vinnustaður heldur árshátíð á stórum veitingastað sem leyfir reykingar, eiga þá þessi 30% í fyrirtækinu sem reykja skilyrðislaust að fá að mökka alt rýmið út við að koma nikótíni í kerfið hjá sér?
Eina leiðin til að koma í veg fyrir slíka vitleysu er að banna reykingar innandyra, því reykingarfólk kann sér ekki hóf í þessum efnum, sérstaklega ekki með áfengi.
Þú hoppar alltaf yfir þá staðreynd að fólk sækir bæinn í þúsundavís um helgar og hvernig sem fólk reynir að haga málunum endar fólk alltaf í bland á djamminu. Þú einfaldlega leysir þetta ekki með því að ætla markaðsöflunum að skipta fólki upp í fylkingar reyklausra og reykingafólks sem stunda sitthvora staðina, enda væri það líka ömurleg þróun.
Þetta eru engar ofsóknir, reykingar ykkar innandyra eru hinsvegar kostulegur dónaskapur og tillitsleysi. Þið eigið samt ekkert að vera heima hjá ykkur frekar en við, enda væri það leiðinlegt þar sem margir mínir bestu og skemmtilegustu vinir eru reykingarfólk, en þið verðið bara að hundskast út í smókinn ykkar því han er óþolandi ósiður sem á ekki að bitna á neinum öðrum en ykkur sjálfum.
Ég skil það vel að þig langi að sitja og reykja yfir kollunni þinni, en þú átt bara ekki heimtingu á því annarstaðar en heima hjá þér. Annað er bara blekking.
Fólk sem mokar ellum í kjaftinn á sér eins og Smarties, sprautar sig á klóinu, mokar fjöllum í nefið á sér og þambar síðan vatn er ekki að menga með því umhverfi sitt. Verði því bara að góðu, og þér líka þínar sígarettur, svo lengi sem þú reykir þær úti
Margir minna vina eru reykingarfólk og kvartar lítið yfir þessu, finnst það meira að segja ágætt að vera ekki alltaf að kafa reyk inn á staði og sjá varla til.
En reykingarklúbbur ætti eiginlega að fá að vera til. Ég fer í gufu á hverjum degi, ég fer ekki þangað inn nema af því að mig langar það. Ég er þó ekki með vatnsgufudælikerfi með mér alltaf á djamminu til að gera umhverfi mitt heitt og rakt, eins og þér virðist þykja eðlilegt og rökrétt.
Það eru kostir og gallar við allt, þetta mál er enn að falla til jarðar. Sjáum hver þróunin verður.
mbk,
Kristinn Theódórsson, 5.9.2008 kl. 13:19
Tuð... hvað er færslan þín annað?
Ingvar Valgeirsson, 5.9.2008 kl. 15:30
Þú þarft ekki að lesa þessa færslu og ég var ekki að leita þig uppi, þefandi eftir reykleysi þínu til þess að skipta mér af þínum einkahögum...
...tuð, já.
En ég er ekki að ráðast að fólki og röfla vegna þess að það er að stunda eitthvað sem mér er ekki að skapi.
J. Einar Valur Bjarnason Maack , 5.9.2008 kl. 16:13
Einar: Kaffi Vín satt sem þú segir, reykingabannið (og reyndar, fæðingarhálfviti við stjórnvölinn) eyðilögðu uppáhalds litlu búlluna okkar. Held að það hafi kannski verið ca. 0.3% af FASTAGESTUNUM þar sem reyktu ekki.
Sorglegast finnst mér að sjá og upplifa hvað þetta bann hefur aðskilið fólk. Fólk sem bæði reykti eða var reyklaust gat a.m.k. djammað saman án þess að einhver einn eða tveir þyrftu alltaf að passa borðið og drykkina á meðan hinir fari út að reykja, og svo öfugt (believe it or not, fullt af svokölluðu 'reyklausa' liðinu strompar eins og skorsteinn strax og þau opna einn bjór).
Vinahópurinn aðskilst og pirringur skapast. Fólk sem ekki reykti áður fer hugsanlega að reykja bara til að geta haft félagsskap.
Svo má ekki fara með drykki út (ekki einusinni í plastglasi sumsstaðar) þannig að ef einungis tveir eru saman úti á pöbb og báðir reykja, þá VERÐA þeir að klára bjórinn/drykkinn áður en þeir fara út! Ég tek a.m.k. ekki sjénsinn á að skilja bjórinn minn eftir á borðinu eða hjá misvitrum dyravörðum, þar sem hver sem er getur laumað rohypnol eða smjörsýru í drykkinn þinn og áður en þú veist af ertu í nauðgunar-skoðun uppá slysó :( Hef tekið eftir því að ég drekk miklu hraðar á pöbbum og skemmtistöðum heldur en t.d. heima hjá mér (þó ég þurfi að fara út að reykja þar líka).
Partíin í mínum vinahóp hafa færst að mestu leyti i heimahús. Við eigum það til að kíkja út ef eitthvað merkilegt er að gerast, en vanalega endist það ekki lengi og áður en maður veit af er maður kominnn heim til sín eða vina sinna. Allir staðirnir stinka af ælu, bjór-viský-gosbjóra-vín-STYBBU (mengun, halló), táfýlu, svitafýlu og öðrum vessaviðbjóði. Ég þrái að finnagömlu góðu sígófýluna í stað fyrir þessa mannafýlu, bjakk! Svo virðist vera allt í lagi að 70% djammara í miðbænum um helgar séu útúrspíttaðir eða kókaðir í hel, nú svo framarlega sem það reykir ekki (löglegu) sígaretturnar sínar. Þetta er liðið sem veður um berjandi mann og annan, áreitandi mig og mínar vinkonur á djamminu, brjótandi flöskur út um allt og ælandi á annað hvert horn.
Sjarmerandi.
kiza, 7.9.2008 kl. 15:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.