Beranlegur léttleiki tilvistar minnar...

Já. Það er alls ekki alltaf tekið út með sældinni að vera maður sjálfur.

Þeir sem mig þekkja vita að ég er tiltölulega fordómalaus einstaklingur, þósvo að ég eigi til að gaspra útúr mér grimmilegum athugasemdum við fólk sem mér finnast fara yfir strikið og á auðvelt með að finnna veika bletti og kaun annara, þá vita líka þeir sem mig þekkja að ég er vel upp alinn og ekki þannig innrættur að ég vilji særa fólk að fyrra bragði.

Flestir vita líka að ég á mjög erfitt með mig í kringum skipulögð trúarbrögð og alla hjarðhugsun, svosem kommúnisma, fascisma og pólítíska réttsýn.

Nú vita líka flestir sem lesa þetta að ég er ötull stuðningsmaður Frjálslynda Flokksins, frá því ég forðaði mér úr vinstrisullinu sökum óþols sem ég hef gagnvart forræðishyggju.

Nú er svo komið að flokksbræður mínir og systur eru jafn ólík og þau eru mörg. Það þykir mér jákvætt, enda vildi ég aldrei tilheyra sauðahjörð þar sem allir hugsuðu eins og hlýddu forystusauðnum í einu og öllu og jörmuðu saman í kór.

Nei. Enda sagði ég mig úr vinstrisullinu.

Á Íslandi, sem og víðast hvar annarstaðar í hinum Vestræna heimi hefur fólk þann hvimleiða ósið að binda alla sína bagga á sama máta og/eða ætla öllum þeim sem binda á annan máta en maður sjálfur að vera öll af sama sauðahúsinu og skert sjálfstæðum vilja og hugsun.

Ég get ekki hvítþvegið sjálfan mig af þessum hvimleiða ósið, enda finnast mér Vinstri Grænir nútildags vera hjarðhugsandi Kommúnistar með síendurtekið jarm á takteinum, þósvo að ég viti fullvel að sú er ekki raunin, því eins og við ættum jú öll að gera okkur grein fyrir, þá erum við öll einstaklingar og í flestum leynist í það minnsta neisti af sjálfstæðri hugsun.

Stúlkan í lífi mínu er Vinstri Græn. Ég myndi aldrei væna hana um að vera jarmandi ær í lopapeysuklæddri kommúnistahjörð, þar eð, ég veit betur, en ég á það til að lita þá stjórnmálablokk talsvert einlita, jafnvel þó ég hafi sjálfur verið á þeim stað fyrir ekki alls löngu.

Hver sá sem hefur reynslu af pólítískum rökræðum við BNAmenn kannast við það að Repúblikanar og Demócratar urra hver á hina hliðina með stereotýpískum fúkyrðum þar sem önnur hliðin er sökuð um að vera mussulýður og gerræðissinnaðir sósíalistar sem vilja skipta sér ótæpilega af byssueign landsmanna á meðan hin hliðin er sökuð um að vera elítusinnaðir jakkalakkar með byssublæti og stríðsæsingamenn með peningafíkn á alvarlegu stigi.

Það gerir sér hver hugsandi einstaklingur grein fyrir því að enginn er svona ægilega svarthvítur. Við búum í heimi þar sem sjö milljarðar einstaklinga búa og þó að það megi leiða að því rök að hver sé öðrum líkari eru engir tveir eins.

Nýverið hafa flokksbræður mínir og systur lýst yfir umdeildum og misjöfnum skoðunum á innflytjendamálum. Áheyrslurnar hafa einatt verið á því að hindra ótakmarkað flæði erlendra ríkisborgara. 

Ástæðurnar hafa verið mismunandi.

Mín helstu rök fyrir því að við ættum að hindra ótakmarkað flæði innflytjenda hingað til lands eru þau einna helst að við erum of fá og illa undir búin til þess að hleypa inn ótakmörkuðu magni.

Ég þekki sjálfur marga innflytjendur og eru þeir oftast nær yndislegt fólk. Ég þekki líka bastarða sem ættu að hafa verið sendir heim strax og þeir hófu að brjóta af sér. Það hefur ekkert með kynþátt eða uppruna, trúarbrögð eða lífsstíl að gera.

Ég á mjög góðan vin sem er múslimi af arabísku bergi brotinn sem tekur þátt í íslensku samfélagi, vinnur hérna, er löghlýðinn og reynir eftir bestu getu að læra tungumálið og að samlagast umhverfinu, án þess þó að tapa sínum sérkennum.

Ég kannast svo við aðra menn sem hafa verið vísir af því reglulega að stunda líkamsmeiðingar niður í miðbæ. Ég kýs ekki að kalla þá vini mína þar sem ég vel mína vini af kostgæfni. Þessir menn neyta harðra fíkniefna, stunda ofbeldi og hafa ekki lagt nokkurn skapaðan hlut á sig hvað varðar það að reyna að samlagast umhverfinu eða læra málið. Öðru nær.

Það hafa farið miklir fordómar um internetið og fjölmiðla undanfarið.

Fordómar eru nafnorð sem lýsir athöfninni að dæma eitthvað fyrirfram, án haldbærra raka og/eða sannana.


Menn sem koma til með að kjósa flokkinn sem ég tilheyri hafa gerst sekir um fordóma, og mér þykir mikið fyrir því og það mjög miður að það eru jú einhverjir kynþáttafordæmandi einstaklingar innan Frjálslyndra. Þeir eru þó ekki í meirihluta, né er það sanngjarnt að Frjálslyndi Flokkurinn lendi í þeim fordómum sem þeir hafa lent í.

Ég hef þurft í sífellu að útskýra fyrir vinum mínum og ættingjum að landamærastjórn hefur ekkert með kynþátt, trúarbrögð, kynhneigð eða annað slíkt að gera og er raunar bara praktískt atriði til þess að vernda hvort tveggja innfædda og innflutta Íslendinga.

Á netinu hefur farið fram holskefla af illa eða óígrunduðum fordómapistlum þar sem hverjum þeim einasta einstaklingi innan flokksins er líkt við nýnazista, fascista, kynþáttahatara, aðskilnaðarsinna etc...

Það er einfaldlega hvorki satt né réttlætanlegt. Þósvo að það finnist einn og einn kynþáttahyggjumaður innan FF, þá eru það fæstir. Fæstir Vinstri Grænir eru harðlínu Stalínistar, þósvo að slíkir finnist þar á meðal, rétt eins og fólk sem hefur yfirlýst dálæti á morðingjum og stríðsglæpamönnum á borð við Maó Tse Tung,  Fídel Castro og fleiri.
Merkilegt líka að enginn skuli minnast á það í sambandi við náttúruverndaröfga að einustu hryðjuverkin sem framin hafa verið hérlendis hafa annarsvegar verið framin af meðlimum ELF - Earth Liberation Front, sem voru ekki betri terroristar en svo að þeir eyðilögðu gröfur í Hafnarfirði sem þeir töldu að ætti að nota til virkjunarframkvæmda, sem síðar kom í ljós að ekki var satt, og fyrra dæmið um hryðjuverk á Íslandi sem var þegar Rod nokkur Coronado sökkti Hvalskipum. Þeir kenna sig líka við vinstri grænsku, þó við séum ekki að tala um sama fólkið né eru VG þekktir fyrir ofbeldisverk.

Vissulega hefur það komið fyrir í hita leiksins að einhverjir einstaklingar hafa látið útúr sér illa orðaðar og illa hugsaðar yfirlýsingar. Það á við um allar hliðar stjórnmála. Ef ég hefði í höndunum lista yfir allar þær fleipur sem farið er með í stjórnmálum... hefði ég gífurlega stóra sagnfræðilega heimild sem næði aftur á daga hins gríska Deimos-Kratia, doðrant sem kæmist hvergi fyrir í hillu.

Ég tel að tími sé kominn fyrir fólk að grípa ekki allt það sem það er matað á sem heilagan algildan sannleik og þenkja nú upp á eigin spýtur. Það er ekki hægt að láta einhliða fréttaflutning sem gengur útá fordóma lita alla orðræðu um innflytjendamál.

Mín skoðun á innflytjendamálum er einföld. Við getum ekki tekið við endalausu magni, við verðum að takmarka fjöldann til þess að geta kennt fólki nóg um réttindi sín og skyldur og komið þeim á Íslenskunámskeið til þess að þetta fólk þurfi ekki að lifa á ríkisspenanum eins og kommúnískir listamenn þessa lands - koma í veg fyrir að innflytjendur verði eins og kommarnir; óalandi og óferjandi og gjörsamlega ósjálfbjarga. Hjálpum fólki að bjarga sér sjálft! Það er mín skoðun. Við getum ekki gert það fyrir endalaust magn manna, enda erum við fá og illa í stakk búin til þess.

NýÍslendingar eiga að fá jöfn kjör á við Íslendinga. Við verðum að breyta atvinnuleyfiskerfinu frá því að vinnuveitendur séu með leyfin fyrir innflutt vinnuafl yfir í það að hinir innfluttu séu með leyfið. Til þess að fá slíkt leyfi þarf hinn innflutti einstaklingur að sitja eins dags eða tveggja daga námskeið þar sem kennd eru réttindi þeirra og skyldur á vinnumarkaði og hvaða laun hinn innflutti á að búast við því að fá - til þess að koma í veg fyrir undirboð. Þegar komið er í veg fyrir undirboð og sanngjörn laun tryggð þá eru líkurnar á því að hér myndist lágstétt verulega minnkaðar. Þetta kemur í veg fyrir þrælahald eins og það sem nú er leyfilegt á Íslenskum vinnumarkaði.

Gerum ekki upp á milli fólks eftir kynþætti, trú eða öðru slíku, gefum fólki jafnan möguleika á því að setjast að hérna. Þeir sem eru staðnir að því að fremja alvarlega glæpi verða sendir aftur til síns heima. Einfalt mál. Fari fólk ekki eftir landslögum og virði réttindi annara til einkalífs og frelsis þess sem finnst hér á landi voru, hefur það ekkert með það að gera að vera hérna.

Ég tel það að vera Íslendingur að geta tjáð sig á Íslensku og að fara eftir Íslenskum lögum; vilja taka þátt í samfélaginu. Það eiga allir að hafa tækifæri til þess - allir sem eru tilbúnir að leggja eitthvað á sig til þess að verða Íslendingar.

Ef það er kynþáttahatur, skal ég hundur heita.

X-F Fyrir þá sem eru á móti þrælahaldi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband