24.3.2007 | 06:11
Svarið og þér mun svarað verða:
Greinin var endurnefnd þar sem mér þótt þetta skemmtilegri fyrirsögn.
Jón Valur Jensson svarar áleitnum spurningum mínum sem ég setti inn í heiðarleika mínum á færslu á bloggi hans, en gefur ekki tækifæri til andsvara sökum þess að einhver ákveðinn tímarammi sem hann hefur á færslum sínum er runninn út.
Svar mitt við færslu hans leit út svona;
Ég fagna því og styð það heilshugar að kristnir sem og aðrir trúaðir fái að verja sína trú fyrir árásum óviðkomandi.
En er ekki til full mikils ætlast þegar kristnir ætla að breyta Íslandi á þá vegu að aðeins kristin gildi fái að þrífast þar?
Er það ekki ógn við lýðræðið og frelsið í landinu?
Eru kristin gildi eitthvað betri eða verri en nokkur önnur trúarleg gildi sem byggja ekki á bláköldum staðreyndum?
Er það ykkur líka fagnaðarefni að Sharialög múslima fái að ríkja í ýmsum miðausturlöndum?
Er nokkurntíman afsakanlegt að trúarbrögð hafi það mikil afskipti af stjórn og samfélagsmálum að þau hindri frelsi þeirra einstaklinga sem ekki aðhyllast trúnna til þess að haga sér eftir sínum eigin gildum?
Ekki stóð á svörum frá þessum annars ágæta bloggara;
Aldrei hef ég heyrt, að "kristnir ætl[i] að breyta Íslandi á þá vegu, að aðeins kristin gildi fái að þrífast þar." Til eru kristin gildi, en til eru líka almennt-manneskjuleg gildi, sem þekkja má með skynseminni einni saman, og ég hef ekki heyrt neinn kristinn boðanda í samtíð okkar sem ryðja vilji þeim burt. Næsta spurning (3. málsliður) er því óþörf með öllu. -- Svar við næstu spurningu þar á eftir: JÁ, svo sannarlega eru kristnu gildin betri en þau "trúarleg gildi sem byggja ekki á bláköldum staðreyndum". -- Svar við þeirri næstu (en verð þó fyrst að taka fram, að ég tala hér fyrir sjálfan mig, hef ekki verið skipaður sem neinn fulltrúi kristinna manna og því óþarfi að tala til mín í fleirtölu!); Það er mér ekkert fagnaðarefni, og ég skil ekki hvernig spyrjandanum dettur það í hug. -- Svar við lokaspurningunni: Já, slík tilvik eru til, ef það "frelsi þeirra einstaklinga" brýtur á frelsi annarra einstaklinga, t.d. ófæddra barna í móðurkviði.
Touché Jón Valur. Það má vera að ég hafi einfaldlega ekki skilning á þessum ýmsustu leyndardómum kristninar, en mér hefur heyrst að almenn mannréttindi hafi staðið í vegi fyrir braut kristsmanna -krossmanna og verið þeim þyrnir í augum.
Til að mynda skrifar þú nú nýverið á blogg þitt að peningum sé "ausið í samkynhneigða" sem að ég get jú skrifað undir að sé á margan hátt grunsamlegur peningamokstur, enda telst ég til frjálshyggnari einstaklinga, en fordómar þínir sem komar fram í orðalagi eins og "Koss Vilhjálms á karlmannshönd í stórfurðulegu gervi "drottningar" er lifandi staðfesting þess, að jafnvel þvílíkan ágætismann er hægt að leiða í björg tízkuhyggju og yfirborðsmennsku [1]. Fjarri hefur það verið hugsun hans, hve margir hafa hneykslazt á því stripli og þeim ósæmilegu háðsútfærslum, sem oft hefur mátt horfa upp á í nefndum göngum homma og lesbía"
Þetta segir mér að þessi annars hneysklanlegi peningamokstur sé ekki eins óþarfur og ætla mætti enda sé þörf á fræðslu sem fyrirbyggjandi meðal gegn fordómum, ef við viljum ekki hverfa aftur til miðaldamannréttinda og ganga öfgasinnuðum trúarhópum á hönd eins og frændur okkar Færeyingar sem aðeins nýverið viðurkenndu að samkynhneygðir væru líka mennskir og hefðu þau grundvallarmannréttindi - frelsi til heilbrigðis - að það mætti ekki lemja þá í mauk. Það stripl sem þú víkur að er verndað samkvæmt tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrár íslenska lýðveldisins.
Þarna sýniru glögglega að þú vilt að þín kristnu gildi ráði ríkjum hér. Ég sé ekkert athugavert við það að þú vilir að hjá þér og þínum séu siðsemi og það kemur mér augljóslega ekkert við. En hvernig kemur það þér við ef aðrir vilja striplast? Það er ekkert sem segir að þú verðir að fylgjast með göngum samkynhneigðra, og ef þú ert fullviss um að þær fari fyrir brjóstið á þér, hversvegna ertu þá að því?
Eigum við að setja samkynhneigða í sérstaka kufla og merkja þá bleikum þríhyrningum í þessum göngum til þess að ganga úr skugga um að þeir fari ekki fyrir brjóstið á neinum?
Þegar ákveðnir trúarhópar sýna þá tilhneygð að vilja stjórna þeim sem ekki tilheyra þeim trúarbrögðum þá eru þeir farnir að ógna lýðræðinu og frelsinu í landinu. Ég er því mjög feginn að þú situr ekki á þingi þar sem að í skrifum þínum sýniru tilhneygingar sem svipar til þeirra sem þú sjálfur hneysklast á, en þá á ég við tilhneygingar strangtrúaðra múslima til þess að vera með nefið í hvers manns koppi.
Ég skil ekki hvernig maður með þinn takmarkaða lesskilning getur verið þetta menntaður, en það sem ég spurði þig var hvort að kristin gildi væru nokkuð betri eða verri en annara trúarbragða, sem líkt og kristni, byggja ekki á bláköldum vísindalegum staðreyndum.
Nú veit ég að þú kemur til með að rökstyðja það að kristni sé blákaldur sannleikur, og það má vera að hún sé það í þínu lífi og þínum microcosmos, en finnst þér ekki það sýna fram á hroka hjá manni sem ætti að vita nógu mikið um metaphysiska hugsun að þú teljir þína upplifun af heiminum vera hinn eina sanna blákalda sannleika?
Ég vil líka láta þig vita af því, nafni minn Jón Valur, að ef að öfgasinnuð trúarbrögð taka völd hér, þá mun ég og aðrir líkt þenkjandi einstaklingar reyna að hrinda slíku frá með öllum tiltækum ráðum, í nafni frelsis og lýðræðis, og ég vona að þú skiljir að þá gildir einu hvort að um kristni eða íslam er að ræða. Þess vegna spurði ég svona barnalega. Papísk lög eru fyrir mér jafn mikið eitur í beinum lýðræðis og frelsis og Sharialög, og því fagna ég hvorugu.
Ef við ætlum að fara að tala um fósturvísa sem einstaklinga, þá vil ég benda þér á að engin kona fer í fóstureyðingu uppá djókið og að fósturvísar hafa ekki nógu þróað taugakerfi fyrr en eftir 12 viku til þess að hafa tilfinningar eða hugsun og ef við virðum rétt kvenna til yfirráða yfir líkömum sínum, þá hljótum við að virða þann rétt til fóstureyðinga fram að tólftu viku, og ef 10 vikna fóstur er 'einstaklingur' en ekki partur af líkama móður sinnar, svaraðu mér þá því hvort líkur séu á því að slíkt fóstur lifði af utan móðurkviðs, með allri tiltækri vísindalegri hjálp, því ef ekki, þá er ekki hægt að ræða um einstakling.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:25 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.