10.3.2007 | 23:21
Hugleiðing um frelsi.
áður birt á myspace bloggi mínu.
Hér á eftir fylgja ólínulegar hugleiðingar um frelsið oftumrædda og birtingarmyndir þess, kynfrelsi, neyslufrelsi, samviskufrelsi, þ.e. frelsi til hugsunar og skoðanaskipta, athafnafrelsi og svo frv.
Við kennum börnum okkar frá unga aldri að líkama þeirra séu þeirra eigin.
Við kennum þeim að enginn megi meiða þau, neyða þau til óhollra eða óviðeigandi athafna eða níðast á þeim á nokkurn máta. Þetta gerum við með það í huga að móta innra með þeim vitneskju um einkarétt sinn yfir líkömum sínum og til þess að byggja hjá þeim vitneskju og með henni mótstöðu gegn þeim sem vildu ráðskast með frelsi þeirra til heilbrigðis og vellíðunar, kynfrelsis og persónufrelsis, frelsis frá níði, frelsis til ákvörðunarréttar yfir þeirra eigin lífi og limum.
Við ölum börn okkar til þess að vera vel mótaðir, sjálfstæðir einstaklingar með sterkar sjálfstæðar skoðnari, skapandi þel og afstöðu og jafnframt góðan skilning og vöggugjöf erfðasyndarinnar, skilning á góðu og illu, marka þessara einda, skilning á því hvar frelsi einstaklingsins hefst og endar.
Í nútímasamfélagi þykir eðlilegt að þessum áfanga sé náð eftir um það bil tvo áratugi. Fram að því eru flest þau frelsi sem að við teljum sjálfsögð mannréttindi í höndum foreldra eða forsjármanna þessara ungu einstaklinga. Þá tekur við nýtt skeið á ævileiðinni þar sem aukið er jafnt og þétt við þau réttindi, skildur og það frelsi sem einstaklingarnir hafa fram að fullorðinsárunum. (sbr Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna.)
Þegar því skeiði er náð sem eðlilegt telst að flokkist sem fulloðrinsár bætast, auk frelsis, ýmsar ábyrgðir á herðar hins manndómsvígða einstakings, ábyrgðir þær sem rétt þykir hvar og hverju sinni að einstaklingurinn beri í samfélagsmyndinni. Til þessara skyldna teljast meðal annars skattbyrgðar, þátttaka í samfélaginu og full ábyrgð á eigin gjörðum gagnvart sjálfum sér, samfélaginu og þeim einstaklingum sem það byggja.
Þessar skyldur eru nauðsynlegar hverjum þeim sem vill teljast fullveðja, frjáls einstaklingur. Ef einstaklingurinn getur ekki sýnt fram á getu sína til þess að stjórna eigin gjörðum getur hann vart verið sinn eigin forráðamaður. Þessu fylgir þó það formerki að þær gjörðir sem einstaklingurinn framkvæmir gagnvart sjálfum sér, sínu eigin sinni og sál og sínum eigin líkama er einungis á eigin ábyrgð og til hans eigin tjónþola, enda á það að vera frumgildi sem kennt er frá blautu barnsbeini að líkami og sál hvers og eins er hans/hennar eigin eign.
Skyldur okkar gagnvart samfélaginu eru þær helstar að við tökum þátt í þeim sameiginlegu athöfnum sem snúa að heill samfélagsins. Þátttaka í sjóðum þeim sem snúa að velferð og heilbrigðismál, menntun ungviðisins og endurhæfingu þeirra sem brotið hafa gegn náunga sínum og samfélaginu.
Einnig teljast til skyldna þáttökur í þeim lýðræðislegu athöfnum og kosningum sem viðkoma sameignum þjóðarinnar, ákvörðunartöku gagvart þeim og lagasetningum sem festa í sessi og vernda þau réttindi og skyldur sem hver einstaklingur innan samfélagsins býr við.
Sú skylda sem ég tel stæsta af öllum þeim sem hver frelsisunnandi skal hlýta er sú að rísa upp til varnar þegar stjórn samfélagsins fer út fyrir sín settu mörk og hefur að hefta frelsið og svipta folk sínum grundvallar ákvörðunarrétti sem hlýtur að eigin líkama, sál og sinni og eignarrétti yfir eigin líkama.
Það vill oft gleymast í hinu daglega amstri að líkamar folks eru þeirra eigin eignir.
Helst gleymist þegar kemur að neyslu ýmissra efna, svosum tóbaks, áfengis og annara vímuefna, svo og hefðunar sem skarast yfir siðsemismörk hvers og eins, einkum hvað varðar kynferðislega hegðun, verslun með kynlíf og/eða kynlífstengt efni.
Víðast hvar í hinum vestræna heimi eru önnur vímuefni en áfengi og tóbak ólögleg sem og kynlífsþjónusta.
Hefur þetta leitt af sér neðanjarðarhagkerfi í tengslum við þessi fordæmdu horn samfélagsins og gert þeim einstaklingum sem iðjur þessar stunda ókleift að taka þátt í að axla ábyrgð á sínum skyldum gagnvart samfélaginu, þar með talið skattgreiðslur í sameiginlega sjóð, sjóði sem einnig sjá þeim sem hafa farið glapstigu í meðferð sinni á fíkniefnum fyrir endurhæfingu.
Úrræði samfélagsins hafa einatt verið þau að sópa þeim vandræðum sem oftar en ekki fylgja þeim vandræðalegu lagasetningum sem viðkoma þessum málaflokkum undir teppið og fangelsa þá einstaklinga sem þessar iðjur stunda.
Þess í stað væri skynsamlegt, til þess að tryggja frelsið að halda þessum málaflokkum í dagsljósinu og gera þeim sem kynlífsiðnað og fíkniefnasölu það kleyft að axla ábyrgð á tilveru sinni.
Með því væri hægt að koma í veg fyrir mansal, tryggja portkonum og mönnum verkalýðsréttindi og tryggingar, heilbrigðisþjónustu og lífeyri.
Eins gerði þetta fíkniefnaneytendum það kleyft með skattgreiðslum að greiða fyrir eigin meðferðarúrræði og taka þar með ábyrgð á eigin gjörðum.
Lögleiðing hefði einni í för með sér þann gleðilega fylgifisk að hægt yrði að hafa hemil á þeim glæpum sem neðanjarðarhagkerfinu fylgja, koma í veg fyrir ofbeldisverk og eignaspjöll og losa samfélagið undan flestum þeim óhjákvæmilegu bágindum sem fylgt hafa núverandi kerfi.
Þegar litið er til samfélagsins án þeirra rósrauðu gleraugna sem ríkjandi stéttir hafa óskað yfir almenning á undanförnum öldum og áraröðum, verður manni ljóst að ýmis siðferðisgildi hafa skyggt á frelsi folks til eigin ákörðunar yfir sínum lífum.
Hafa þessi siðferðisgleraugu einatt litast af trúarbrögðum og pólitískri rétthugsun, sem hvorttveggja eru fyrirbæri sem hafa ekkert með einstaklingsfrelsið að gera, heldur einatt verið skoðunarmyndandi og kúgandi gagnvart tjáningar, sköpunar og skoðanafrelsi einstaklingsins.
Siðferðisgildi trúarbragða og pólitískrar rétthugsunar mata samfélagið af ábyrgðarleysi; glæpamaður er ekki sekur, heldur er samfélagið gert ábyrgt fyrir gjörðum hans samkvæmt pólitískri rétthugsun. Morðingi með trúarlega grímu framkvæmir ekkert ódæi heldur var verknaður hans aðeins snúningur tannhjóls í Guðs vilja.
Skynsamur frelsisunnandi lætur ekki blekkjast af slíkum hjákátlegum athugasemdum sem litað hafa samfélög 20 og 21 alda.
Í trúfrelsi felst það fyrirkomulag sem einnig á heima í öllu öðru frelsi:
Þú átt þinn huga, þína sál og þinn líkama og þér er frjálst að haga þessum séreignum þínum á hvern þann máta sem þér þykir hyggnast.
Þér er frjálst að trúa á hvað það sem þér líkar best, en jafnramt ber þér, sem handhafa þessa frelsis að bea á því ábyrgð og umburðarlyndi gagnvart ákvörðunum annara.
Það er akkúrat á þessum stað þar sem pottur er víða brotinn í nútímasamfélagi.
Meðal flestra trúrarbragða, og einatt hjá eingyðistrúrabrögðum er hugmyndin um algildan sannleik hvað sterkust.
Innan ramma slíkra lífsviðhorfa er lítið sem ekkert rúm fyrir persónulega túlkun og hvað þá sjálfstæða trú.
Það var ekki fyrr en í siðbót kristinna mann að þar tók að bera á öðrum túlkunum á orðum Biblíunar (en þeim sem þekkst höfðu frá Aust og Vest-Kaþólsku kirkjunum) og loks á fjölbreyttari trúarstefnum innan þessara trúarbragða.
Þrátt fyrir það takmarkaða umburðarlyndi sem skaust upp með hinni svonefndu siðbót héldu múgæsingar og ofsóknir á hendur þeim sem höfðu aðrar lífssýnir áfram, hvort sem þær voru til forneskju eða vísinda.
Eins höfum við í dag alræðistrúarbrögð pólisískrar réttsýni að glíma við, þó að frelsi til trúar og frjálsra skoðanna séu víðast hvar stjórnarskrárbundin.
Ofsóknir á hendur þeim sem líkt og laxinn synda á mót straumnum halda áfram.
Það sem brýtur helst á frelsi fólks til skoðanafrelsis og ákvörðunarréttar yfir sjálfinu í dag er einna helst þessi réttrúnaður. Hjarðhugsendur í formi stjórnmálaafla og trúarbragða níða sínum siðferðismötum yfir þá sem brjóta blað lífsins á annan máta og lifa sínu lífi eftir eigin hentisemi.
Augljós náttúrulögmál eins og það að líf þrífst á lífi eru jafnvel litin hornauga og einna helst ættu allar lífverur, menn, ljón, kýr, fiskar og plöntur að ljósttillífa til þess að rósrauð duttlungastefna þeirra trúarbragða sem kenna sig við pólitíska réttsýni haldi velli.
Náttúran má ekki vamm sinn vita og lögmálið um afkomu þeirra hæfustu á ei lengur við.
Nú skulu dýrategundir sem hafa alla tíð verið búfénaður og eiga enga eftirlifandi samsvarandi ættingja í náttúrunni þyrmt, enda nánast glæpsamlegt að bera sér líka annarar tegundar til munns.
Þó vissulega séu vandkvæði víða á meðferð mannsins á náttúrunni og víða hafi pólitískt rétthugsandi einstaklingar rétt fyrir sér í þeim málaflokki, getur engin sjálfstætt þenkjandi mannvera gleypt allar þær skoðanir umbúðalaust.
Hinsvegar verður það að teljast pólitískt réttþenkjendum til tekna að þrátt fyrir vissa skoðanalögreglu eru þeir ogtar en ekki öflugir bandamenn hvað varðar ýmsar aðrar birtingarmyndir frelsisins.
Umburðarlyndið sem frelsið krefst af hverjum og einum hlýtur að vera afstætt eftir getu hvers og eins. Hinsvegar er umburðarlyndi gagnvart umburðarleysi hvers og eins líka nauðsynlegt, svo lengi sem umburðarleysi og fordómar takmarka ekki frelsi þeirra sem fyrir þessum neikvæðu hliðum skoðana og málfrelsisins verða.
Innan frelsisins verða allar tegundir að þrífast. Það og gjald og laun umburðarlyndisins. Þetta hlýtur þó að takmarkast, við það að sækja að því að takmarka frelsi annara.
Til þess að maður geti með sönnu talist frjáls þarf hvorttveggja til að bera; ábyrgð og umburðarlyndi. Án þessara megineinda getur enginn talist frjáls.
Til þess að þú, minn ágæti lesandi, teljist frjáls, þarf samfélagið umburðarlyndi gagnvart þér og þeim sem bera ólíkar skoðanir og lífssýnir.
Til þess að samfélagið sé umburðarlynt gagvart þér, þarft þú að umbera samfélagið og þá ólíku einstaklinga sem það byggja.
Til þess að þú, minn umburðarlyndi lesandi, teljist frjáls, þarftu að bera ábyrgð.
Hver og einn sem krefst og þarfnast frelsis og sjálfræðis þarf að bera ábyrgð á sjálfum sér og sínum verkum.
Án ábyrgðar á eigin gjörðum, orðum og skoðunum getur enginn talist sjálfs sins herra, drottinn eigin lífs og lima. Án ábyrgðar getur enginn talist frjáls.
Með ósk um umburðarlyndi og með fullri ábyrgð.
JEVBMaack.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.