Haraldur og Margrét.

Gæti verið nafn þýðingar á klassískri bíómynd Hals Ashby frá árinu 1971 um skötuhjúin Harold og Maude og samband þeirra. (Maude hét réttu nafni Marjorie samkvæmt myndinni).

Mér varð hugsað til þessarar myndar í gærkvöldi þegar ég tók þátt í umræðu á síðu Jennýjar Önnu Baldursdóttur um samband Rons Wood, 61 árs gamals meðlims Rolling Stones við 23gja ára gamla fyrirsætu frá Rússlandi.

Ég er enganvegin að mæla sambandi þeirra síðarnefndari skötuhjúanna bót, heldur að spyr ég, hver erum við að dæma hvað fer fram milli tveggja fullorðinna einstaklinga?

(Spoiler viðvörun fyrir ykkur sem ekki hafið séð þessa 37ára gömlu mynd, ég mæli sterklega með henni)

Í mynd Ashbys er hinn rúmlega tvítugi Harold orðinn leiður á lífinu (Bud Cort var 24ra þegar hann lék hlutverkið). Hann á enga vini, móðir hans skipar honum fyrir og ætlar að ganga svo langt að velja fyrir hann konu (eins og hann væri lítil stúlka í Arabíu). Harold sækir sér skemmtan við það að heimsækja jarðarfarir ókunnugra og kynnist hann í þeim jarðaförum Maude, konu sem er að detta inn í áttrætt, en lifir lífinu til hins ýtrasta. Hikar ekki við að stela bílum af götunni og skemmta sér á hvern þann máta sem henni hugnast.

Harold og Maude verða með tímanum bestu vinir, hin stórskemmtilega og léttgeggjaða Maude dregur hinn innhverfa og þunglynda Harold útúr skelinni og kennir honum að njóta lífsins. Þau fella loks hugi saman, Harold hyggst kvænast Maude en áður en hann spyr hana fordæma allir þeir sem heyrt hafa af hans ráðum sambandið og Maude tekur svo líf sitt á kvöldi áttræðisafmælis síns og lætur lífið síðar um kvöldið. 

(/Spoiler) 

Þessi mynd er einkar falleg, hún er á engan máta klámfengin eða óhugguleg heldur er verið að fjalla á raunsæjan og fallegan máta um tvo einstaklinga af ólíkum uppruna sem fella hugi saman.

En ef við skoðuðum hinn pólinn á hæðinni -algjöra andstæðu þessarar myndar- bókina Lolita eftir Michail Nabokov, fáum við aðra sýn á málin, en þar er ekki verið að fjalla um fullorðnar manneskjur sem verða ástfangnar, heldur miðaldra mann, Humbert Humbert sem fellir hug og aðra líkamsparta sína til hinnar 12 ára gömlu Doloresar eða Lolitu eins og hún er kölluð. Möguleg fyrirmynd Nabokovs í þeirri bók var hinn fimmtugi Frank La Salle sem árið 1948 rændi stúlku, 11 ára að aldri, og ferðaðist með hana vítt og breitt um BNA og misnotaði kynferðislega á hótelum sem hann skráði þau inn á, undir þeim formerkjum að hún væri dóttir hans.

Lolita hefur frá því að hún fyrst kom út árið 1956 haft mikil áhrif á samfélagið. Tabú eins og barnagirnd og önnur mál sem voru lítið sem ekkert rædd komu fram í dagsljósið og sem betur fer er  vitneskja og skilningur fólks á þeim glæpum að aukast svo líkur eru á því að hægt verði með tímanum að koma betur í veg fyrir glæpi af þessum toga.

En aftur af hinum steingerða Ronnie Wood.
Eins og tíðkast oftar en ekki þegar um samband Chihuahua við sér eldri karl, hvort sem þar er um eiginlegan Sykurpabba eða vögguræningja að ræða, hleypur fólk til með fordæmingar á þessum samböndum á þeim forsendum að hér sé um Lolítusambönd að ræða, þó það sé ekki málið í því tilfelli sem um er að ræða, heldur sé um að ræða samþykkt samband tveggja fullorðinna einstaklinga, er komið fram við yngri einstaklinginn eins og vitleysing sem ekki er fær um sjálfstæða ákvarðanatöku og þann eldri eins og rándýr. Þetta sést best á viðurnefnum þeim sem er hlekkjað á hér að ofan og jafnvel heyrir maður meldingar eins og að kalla þann eldri barnaníðing, þó hann hafi ekkert slíkt gert og með því er hugtakið GJALDFELLT og NORMALISERAÐ í stað þess að kalla hlutina réttum nöfnum og sleppa slíkum ærumeiðingum sem gera ekkert nema lítið úr fórnarlömbum barnaníðinga.

Berið saman: Púmur og gaupur (eldri konur sem sækjast í yngri menn), kjúklingavákar (en. Chickenhawk, samkynhneigðir karlar sem sækjast í sér yngri menn) á móti 'Chihuahua' (ungar konur sem sækjast í sér eldri menn, er hér líkt við töskuhunda) og 'Boy toy' (Strákar sem hé er verið að kalla leikföng, á svona titlum sést að ekki aðeins konur eru hlutgerðar í heiminum...).

Hér, í tilfelli Woods og Ektarínu Ivanovu er þó að öllum líkindum um svokallað Enjo Kosai að ræða, Enjo Kosai er japanskt fyrirbrigði sem hægt væri að þýða sem niðurgreitt samband. Þ.e. ríkidæmi eldri aðilans gerir hann meira aðlaðandi í augum hinnar yngri og því slær hann um sig með ríkidæminu við hvert tækifæri. Athugið að Enjo Kosai á aðeins við þar sem karlinn er eldri og ríkari, þegar málið umpólerast er um Gyaku Enjo Kosai að ræða.

Ég finn þó litla tilhneigingu til þess að vandlættast yfir þessu. Ef báðir aðilar hagnast á þessu hef ég ekki leyfi til þess að fordæma, ég get ómögulega gefið sjálfum mér slíkt. Þetta er jú ekki mitt mál og ég þekki ekki allar hliðar málsins, aðeins þær sem birst hafa í fjölmiðlum og verið fordæmt af öðrum. Ég er ennfremur ekki sálfræðingur Ektarínu, sem gæti verið haldin svokallaðri Gerontophiliu, þ.e. laðast að hinum öldruðu. Ég hreinlega veit það ekki og ætla því ekki að dæma ástir annarra.

 

Í eftirmála Lolitu reit Nabokov um apa nokkurn í Jardin des Plantes (ekki grasagarðinum í Laugardal) sem hafði verið kennt að teikna með kolum.  Fyrsta myndin sem apinn málaði var af járnstöngum búrs síns. Því sem lokaði hann frá frelsi sínu.

Þær járnstangir sem í samfélaginu vilja neyða sitt fegurðar eða siðferðismat uppá aðra eru engu skárri. Þær járnstangir sem vilja segja okkur hvað við megum elska og hvað ekki, hvað sé rétt fyrir okkur. Þær hrokafullu járnstangir sem telja sig vita best hvað er þér fyrir bestu.

Þegar um tvo fullorðna einstaklinga er að ræða væri nær að bera samband samþykks fólks á ólíkum aldri við Harald og Margréti en ofbeldið sem Humbert Humbert beitti Dolores.

Í þessum heimi er nefnilega ekki sjálfgefið að finna ástina.
Hún kemur bara og fer eins og hvað annað.

Hver ert þú þá að fordæma leit annarra að hamingjunni? Hver ert þú að fordæma Maí-Desember-sambönd annarra?

 

Ást (á öllum aldri).

Kv. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ók, ok, ég las, þú hefur til þíns máls.

Takk fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 25.8.2008 kl. 15:52

2 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Gott mál.  

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 25.8.2008 kl. 16:09

3 Smámynd: Haraldur Davíðsson

What! Jenny ertu að linast ? Hingað til hefur Femifasisminn staðið í þér..........

.......og fleirum.

Haraldur Davíðsson, 25.8.2008 kl. 23:12

4 Smámynd: Emma Agneta Björgvinsdóttir

Nákvæmlega fullorðið fólk, aldursmunur skiptir ekki máli en ég myndi persónulega ekki laðast að sjötugum krumpukalli en 18 ára er fólk orðið fullorðið, fór reyndar sjálf í sambúð 16 ára og komst þess vegna inn á alla skemmtistaðina Skemmtileg færsla hjá þér.

Emma Agneta Björgvinsdóttir, 26.8.2008 kl. 08:41

5 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Þakka það. 

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 26.8.2008 kl. 16:47

6 Smámynd: Sleepless

Einar, þú ert svo mikill snillingur og það er mjög gaman að lesa það sem þú ert að setja hér inn.

En það er merkilegt hvað fólk þarf að vera með nefið uppí rassgatinu á hvort öðru, tilbúið til að gagnrýna og spúa almennum leiðindum yfir fólk sem er bara að elta hjartað sitt.

Sauced be you soul
Sleepless

Sleepless, 27.8.2008 kl. 13:38

7 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Ég skil módelið svosem vel...þó ég myndi persónulega ekki sofa hjá Ronnie (jú, auðvitað myndi ég gera það, who am I kidding). En jafnaldri hans, John Larroquette, ekki spurning. Jeremy Irons er sextugur, Mikhail Baryshnikov líka, Roger Daltrey er orðinn 64, Christopher Walken  líka og Alan Rickman er 62, en ég myndi ekki sparka neinum þeirra úr rúminu.

Sextugt er bara ekki svo gamalt lengur.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 27.8.2008 kl. 14:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband